Roðinn í austri er ítarlegasta rannsókn sem gerð hefur verið á upphafi kommúnistahreyfingarinnar á Íslandi.
Í bókinni segir frá atburðum áranna 1919–1924 þegar Ólafur Friðriksson og Hendrik Ottósson voru áhrifamestir í röðum kommúnista. Brugðið er nýju ljósi á „Rússagullið“ og Moskvulínuna ― ferðirnar á heimsþing Kominterns og Alþjóðasambands ungkommúnista og aðild Alþýðuflokksins og síðar Jafnaðarmannafélags Reykjavíkur að Komintern. Fjallað er um rætur klofningsins í Alþýðuflokknum og fyrstu ár vinstri andstöðunnar innan hans, Félag ungra kommúnista og Áhugalið alþýðu. Ekki síst hefur bókin að geyma nýjar og mikilvægar upplýsingar um „drengsmálið“ svonefnda sem skók íslenskt samfélag.
Að baki bókarinnar býr um tíu ára þrotlaus rannsóknarvinna. Byggt er á innlendum og erlendum frumheimildum sem margar hafa ekki verið rannsakaðar áður. Óhætt er því að segja að útkoma þessarar bókar sæti tíðindum í íslenskum sagnfræðirannsóknum.
Snorri G. Bergsson er MA í sagnfræði frá Háskóla Íslands. Hann hefur stundað sérfræðinám og rannsóknir við erlenda háskóla og fræðistofnanir.
Innbundin – 390 bls.
Útgáfuár: 2011