Ferð til Indlands er frægasta verk enska skáldsagnahöfundarins E.M. Forsters. Bókin gerist á Indlandi á fyrri hluta tuttugustu aldar þegar landið laut breskri stjórn. Enskar aðkomukonur, Adela Quested og frú Moore, mæta tortryggni meðal breskra íbúa borgarinnar Chandrapore þegar þær lýsa yfir áhuga á að kynnast innfæddum og öðlast skilning á lífsháttum þeirra og aðstæðum. Þær komast í kunningsskap við vinghjarnlega, indverskan lækni sem skipuleggur leiðangur að hinum fornu, manngerðu hellum í Marabar, skammt fyrir utan borgina. En eitthvað fer úrskeiðis í ferðinni og Adela sakar manninn að hafa ráðist á sig. Viðleitni hennar til að blanda geði við hina innfæddu þróast út í árekstur milli þeirra og Englendinganna og afhjúpar um leið margháttaðan klofning innan indversks samfélags.
Hjalti Þorleifsson þýddi.
E.M. Forster (1879–1970) er einn af virtustu rithöfundum Englendinga á tuttugustu öld. Meðal helstu verka hans, auk Ferðar til Indlands (1924), má nefna A Room with a View (1908), Howards End (1910) og Maurice (1971). Eftir öllum þessum bókum hafa verið gerðar vinsælar kvikmyndir.
Á námsárum sínum í Cambridge kynntist Forster nemendum sem síðar urðu margir hverjir á meðal helstu lista- og menntamanna í Evrópu. Ásamt fleirum mynduðu þeir hóp sem kenndur var við Bloomsbury-hverfið í Lundúnum en aðrir meðlimir hans voru meðal annars Clive Bell, Roger Fry, John Maynard Keynes og hjónin Leonard og Virginia Woolf.
Að loknu námi sinnti Forster um tíma kennslustörfum og ferðaðist um Ítalíu og Indland. Í fyrri heimsstyrjöldinni starfaði hann á vegum Rauða krossins í Egyptalandi. Í upphafi þriðja áratugarins þjónaði hann sem einkaritari við hirð indverska furstans Tukoji Rao III í Dewas og eignaðist marga indverska og ensk-indverska kunningja. Forster var um langt skeið ötull gagnrýnandi og pistlahöfundur í blöðum, tímaritum og í útvarpi hjá breska ríkisútvarpinu, BBC.
Innbundin – 436 bls.
Útgáfuár: 2022