Geislar vorsólarinnar leika um Linköping í Svíþjóð. Borgarbúar varpa af sér vetrardrunganum og flykkjast á útiveitingahúsin við Stóra torgið í hjarta borgarinnar. Nokkrar svölur svífa í loftinu, litríkir túlípanar eru boðnir til sölu og móðir með tvö ung börn gengur í átt að hraðbanka. Skyndilega er kyrrðin rofin — af öflugri og háværri sprengingu.
Rannsóknarlögreglukonan Malin Fors stendur við kistu móður sinnar er lágur dynur rýfur þögnina í útfararkapellunni. Skömmu síðar er hún á leið á Stóra torgið. Þar mætir henni sjón sem hún mun aldrei gleyma. Torgið er þakið glerflísum, sundurtættum blómum og grænmetisleifum. Augu hennar staðnæmast við ónýtan barnaskó. Mitt í þrúgandi þögninni nartar dúfa í eitthvað rautt.
Mons Kallentoft er einn af þekktustu höfundum Svíþjóðar. Ritröð hans um Malin Fors, lögreglukonu í Linköping, hefur notið mikilla vinsælda. Vorlík er fjórða bókin í röðinni en hinar þrjár, Sumardauðinn, Haustfórn og Vetrarblóð, hafa selst í meira en einni milljón eintaka og verið þýddar á 24 tungumál.
Jón Þ. Þór þýddi
„Lestrarveisla fyrir alla sem kunna að meta spennu.“ – Norra Västerbotten
„Einhver kallaði Kallentoft konung sænsku glæpasögunnar um þessar mundir. Það eru engar ýkjur.“ – Östran
Kilja – 496 bls.
Útgáfuár: 2015