Minnisblöð veiðimanns <br><small><i> Ívan Túrgenev </i></small></p>

Minnisblöð veiðimanns
Ívan Túrgenev

8.499 kr
8.499 kr
VSK er innifalinn. Heimsendingarkostnaður er innifalinn í verði ef verslað er fyrir 5.000,- eða meira. Annars er það 1.500,-

Skáldjöfurinn Ívan Túrgenev kynntist snemma bágum kjörum rússneskra bænda og miskunnarleysi þeirra sem réðu yfir þeim. Hann ólst upp á landareign móður sinnar, sem þótti með eindæmum óvægin og grimm, en hún hafði yfir að ráða meira en fimm þúsund „sálum“ eins og ánauðugir bændur voru gjarnan nefndir. Reynsla Túrgenevs úr uppvextinum varð honum innblástur í þessa bók, Minnisblöð veiðimanns, sem kemur nú út í fyrsta sinn á íslensku.

Í Minnisblöðum veiðimanns ferðast sögumaður um sveitir Rússlands og hittir landeigendur, ráðsmenn, bændur og bóndakonur auk annarra minnisstæðra persóna. Hann lýsir þessu fólki með raunsönnum og eftirminnilegum hætti en sagan er þó ekki síður óður til rússneskrar náttúru – birkiskóganna og sveitarinnar. 

Þegar bókin kom út árið 1852 var Túrgenev handtekinn og sendur í útlegð á ættaróðal sitt. Bókin er þó sögð hafa haft mikil áhrif á Aleksander II. Rússakeisara en það var hann sem steig loks það afdrifaríka skref að aflétta bændaánauðinni árið 1861.

Áslaug Agnarsdóttir íslenskaði og ritaði eftirmála.

Ívan Sergejevítsj Túrgenev (1818–1883) var af aðalsætt og fæddist á landareign foreldra sinna, Spasskoje-Lútovínovo, fyrir sunnan Moskvu. Nítjánda öldin var umfram allt öld skáldsögurnar í rússneskum bókmenntum, höfunda á borð við Dostojevskí og Tolstoj auk Túrgenevs. Túrgenev var talinn fremstur þeirra meðan hann lifði og var auk þess sá sem var best þekktur í Vestur-Evrópu. Fy rsta skáldverk hans sem vakti athygli, Minnisblöð veiðimanns, kom út árið 1852 og markaði tímamót í rússnesku raunsæi. Frægasta verk hans er skáldsagan Feður og synir sem komið hefur út í íslenskri þýðingu, en eftir hann liggja sjö skáldsögur, um það bil tugur leikrita og mörg styttri verk. Túrgenev bjó lengi í Þýskalandi og Frakklandi þar sem hann lést.

Áslaug Agnarsdóttir starfaði um árabil sem bókavörður á Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni jafnframt því að vera stundakennari og prófdómari í rússnesku við Háskóla Íslands. Meðal þýðinga hennar úr rússnesku má nefna Bernsku, Æsku og Manndómsár eftir Lev Tolstoj, smásagnasöfnin Sögur frá Rússlandi og Sögur frá Sovétríkjunum, Dauðann og mörgæsina og Gráar býflugur eftir Andrej Kúrkov, Bréfabók eftir Míkhaíl Shíshkín og Ferðatöskuna eftir Sergej Dovlatov. Áslaug hlaut Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar á degi íslenskrar tungu árið 2023.

Innb. – 525 bls.

Útgáfuár: 2025