DAGLEGT LÍF OG MENNING Á EYRARBAKKA
Hér segir frá kaupmannskonunni Eugeníu Nielsen (1850–1916) sem gerði Húsið sögufræga á Eyrarbakka að miðstöð félags- og menningarlífs á Suðurlandi á síðari hluta nítjándu aldar og fyrstu árum þeirrar tuttugustu. Þangað komu innlendir og erlendir rithöfundar, tónlistarfólk og listmálarar, sumir árlega, og miðluðu list sinni.
Eugenía var kvenskörungur, stjórnsöm og virðuleg húsmóðir sem gekk ríkt eftir reglu og þrifnaði en auk þess ákaflega gestrisin og hjálpfús. Óþreytandi framfarahugur hennar og menningaráhugi skapaði einstakt andrúmsloft í litla þorpinu við ströndina og nærsveitum þess. Eugenía beitti sér fyrir stofnun og starfsemi bindindisfélags, kvenfélags, leikfélags, söngfélags og ungmennafélags og gekk fram fyrir skjöldu í líknarmálum margs konar í þágu fátæks fólks og bágstaddra.
Höfundur bókarinnar, Kristín Bragadóttir, fæddist og ólst upp á Eyrarbakka og þekkir því vel til sögusviðsins. Auk þess að segja sögu Eugeníu lýsir Kristín fjölbreyttu mannlífi á Eyrarbakka og ekki síst lífi og störfum alþýðukvenna á síðari hluta nítjándu aldar og í upphafi þeirrar tuttugustu.
Kristín Bragadóttir er doktor í menningar- og bóksögu frá Háskóla Íslands. Áður lauk hún BA-prófi í sagnfræði, bókmenntasögu og bókasafnsfræði og MA-prófi í miðaldabókmenntum frá Háskóla Íslands auk þess að leggja stund nám í bókmenntasögu og rannsóknarnám í bókmenntafélagsfræði við Uppsala-háskóla. Kristín var sviðsstjóri varðveislusviðs Landsbókasafns Islands-Háskólabókasafns á árunum 1994–2005 og 2008–2010 og yfirbókavörður við bókasafn Norræna hússins 2005–2008. Hún var ritstjóri fræðiritsins Islandica 1999–2005 og hefur setið í ritstjórn Ritmenntar (1996–2003), Nordisk kulturpolitisk tidskrift (1999–2003) og 1700-tal (frá 2019). Bakkadrottningin er þriðja bók hennar en áður hefur hún gefið út tvær bækur um Willard Fiske og bókasöfnun hans. Hún hefur birt fjölda ritrýndra fræðigreina í tímaritum og bókum.
Innbundin – 404 bls.
Útgáfuár: 2022