Lundúnaborg á síðari hluta 19. aldar iðar af lífi og nýjum hugmyndum. Hr. Verloc rekur litla búð í Soho-hverfinu. Þar býr hann ásamt konu sinni, Winnie, vangefnum bróður hennar, Stevie, og gamalli móður þeirra. Hr. Verloc er ekki allur þar sem hann er séður. En hann ofmetur eigin klókindi og sogast inn í atburðarás sem hann hefur enga stjórn á. Við sögu koma stjórnleysingjar af ýmsu tagi, hryðjuverkamenn og háttsettir stjórnarerindrekar, lögregluforingjar og stjórnmálamenn ásamt þekktri samkvæmisdömu.
Leynierindrekinn er eitt kunnasta verk pólska rithöfundarins Josephs Conrad (1857–1924) sem skrifaði á ensku og varð einn af risum enskra bókmennta. Í þessari áhrifamiklu skáldsögu nýtur kaldhæðni Conrads sín vel og sjaldan er persónusköpun hans meira sannfærandi.
Atli Magnússon þýddi.
„Annað af tveimur afburða meistaraverkum Conrads, eitt af hinum óvefengjanlegu sígildu verkum af hæsta gæðaflokki sem hann lagði til enskrar skáldsagnagerðar.“
F.R. Leavis, The Great Tradition
Joseph Conrad (Konrad Korseniowski) fæddist í rússneska hluta Póllands árið 1857. Foreldrar hans dóu þegar hann var á unga aldri. Á sautjánda ári hélt hann til Marseille í Frakklandi og réð sig á kaupskip. Næstu tuttugu árin sigldi hann um öll heimsins höf. Hann lenti í mörgum ævintýrum og mátti þola vosbúð og harðneskju. Hann gerðist breskur þegn árið 1886 og settist að í Englandi. Eftir útkomu fyrstu skáldsögu hans, Almayer’s Folly, 1895, urðu skriftir að lifibrauði hans. Á næstu þrjátíu árum sendi hann frá sér hverja skáldsöguna af annarri. Hann lést á Englandi árið 1924.
Atli Magnússon hefur íslenskað þrjú af þekktustu verkum Conrads, Meistara Jim (Lord Jim), 1998, Nostromo, 2006, og Leynierindrekann (The Secret Agent). Af öðrum kunnum verkum Josephs Conrads má nefna Heart of Darkness, The Nigger of the „Narcissus“ og Under Western Eyes.
Innbundin – 320 bls.
Útgáfuár: 2012