„Jón Sveinsson lifði og hrærðist i bókum sínum, Nonnabókunum. En honum fannst hann jafnframt þurfa að fylgja sögum sínum eftir með því að ferðast um heiminn, hitta fólk og komast í lifandi samband við það. Þannig fékk einnig eirðarleysi hans „postullegan“ tilgang. Hann var heimsmaður án föðurlands, talaði mörg tungumál en sjaldnast sitt eigið móðurmál, rótslitinn einstæðingur með kjölfestu í voninni, alla sína ævi á leiðinni heim.“
Þannig kemst Gunnar F. Guðmundsson að orði undir lok bókar sinnar um Jón Sveinsson sem árið 1870 yfirgaf föðurland sitt og sneri einungis til baka sem gestur.
Jón gekk inn í samfélag sem var eins fjarri íslenskum veruleika og hugsast gat. Hann gerðist kaþólskur prestur og kennari meðal Jesúíta. Hann var sendur víða til starfa – en þó aldrei til Íslands. Iðulega átti hann í innri togstreitu sem birtist vel í dagbókarskrifum hans og bréfum. Köllun hans til ritstarfa varð að miklu höfundarverki og bækurnar um Nonna víðfrægar, þýddar á um 30 tungumál og komu út í stórum upplögum. Jón lést í Þýskalandi árið 1944 þar sem sprengjurnar drundu allt um kring.
Auðmjúkur prestur, rithöfundur, kennari, fyrirlesari, tónlistarmaður, heimsborgari, Pater Jón Sveinsson lifði alla ævi í heimi bernskunnar þrátt fyrir að vera einn víðförlasti og þekktasti Íslendingur síns tíma.
Gunnar F. Guðmundsson fæddist í Reykjavík 1952. Hann lauk cand. mag.-prófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands árið 1979 og prófi í uppeldis- og kennslufræðum frá sama skóla árið 1982. Auk sannfræðirannsókna hefur Gunnar starfað sem framhaldsskólakennari og við skjalavörslu. Eftir hann liggja margar ritgerðir í safnritum og tímaritum, einkum um kirkjusögu, trúarbrögð, jarðabækur og eignarhald á afréttum og almenningum. Meðal bóka hans má nefna Íslenskt samfélag og Rómakirkja í ritsafninu Kristni á Íslandi (2.b.).
Ævisaga Gunnars um pater Jón Sveinsson – NONNA kemur nú út í nýrri útgáfu en bókin hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin þegar hún kom fyrst út árið 2012.
Innbundin – 635 bls.
Útgáfuár: 2022