
Elo sat um stund og hikaði en snerti síðan líkið varlega. Það var ískalt. Hann dró hendina snöggt að sér; það var eitt að handleika ískaldan fisk á hverjum degi, annað að snerta dána manneskju.
Karlmaður finnst myrtur í báti á reki við Uummannaq á Norður-Grænlandi. Í farmi bátsins reynist vera mikið magn af hvítabjarnarfeldum og náhvals- og rostungstönnum.
Við fyrstu sýn virðist hér um að ræða smyglvarning og afrakstur ólöglegra veiða. Í Kína seljast hvítabjarnarfeldir á háu verði og verð á tönnum rostunga og náhvala hefur rokið upp eftir að skorin var upp herör gegn veiðiþjófum í Afríku. Umhverfisverndarsamtök láta í sér heyra — og Sika Haslund reynir að afstýra því að málið skaði orðspor Grænlands erlendis og þar með ferðaþjónustuna.
Í kjölfarið fer Sika að rannsaka málið ásamt blaðamanninum Þormóði Gíslasyni. Þau komast fljótt að því að maðkur er í mysunni ...
Svarti engillinn er önnur bókin um Sika Haslund í sjálfstæðum flokki glæpasagna sem gerast á Grænlandi eftir danska rithöfundinn Ninu von Staffeldt.
Fyrsta bókin í flokknum, Frosin sönnunargögn, hlaut verðlaun Det Danske Kriminalakademis sem besta frumraun ársins 2016.
Lára Sigurðardóttir þýddi
„Sika Haslund er alvöru – hún er grænlensk, hún er dönsk, hún er pirrandi og stundum fyndin og stundum líka eiturskörp en hún er fyrst og fremst manneskja. Og hún er frábær kynning á Grænlandi.“ – Politiken
„Ég hlakka til að lesa meira um Sika Haslund, því Svarti engillinn er ein af bestu og frumlegustu spennuskáldsögum ársins.“ – bogpusheren.dk
Kilja – 307 bls.
Útgáfuár: 2022