
Baugsmálið svokallaða vakti upp einhverjar áköfustu illdeilur Íslandssögunnar. Ófyrirleitinn auðhringur beitti fjölmiðlaveldi sínu til að takast á við stjórnmálavaldið í landinu og fylkja almenningi á bak við sig. Þeir, sem taldir voru standa í vegi fyrir auðhringnum, voru miskunnarlaust rægðir. Skipulega var grafið undan trausti á stofnunum þjóðfélagsins, ekki síst lögreglu og eftirlitsaðilum. Fé var borið á stjórnmálamenn og félagasamtök. Jafnvel dómstólar landsins voru ekki undanskildir, sbr. dómana í Baugsmálinu sem endurspegluðu fjölmiðlaáróður auðhringsins og áhrif hans á almenningsálitið. Öllu hafði verið snúið á haus – rétt varð rangt. Samhliða var stiginn hrunadans í fjármálalífinu þar sem fyrri viðmið viku fyrir taumlausri dýrkun á Mammoni. Lygi og falsvonir réðu ríkjum í íslensku samfélagi.
Mitt í þessari orrahríð tók skáldið og gamli Morgunblaðsritstjórinn, Matthías Johannessen, til vopna í þágu siðlegs lífs á Íslandi. Þessi bók er ávöxtur þeirrar baráttu. Matthías vildi vekja þjóð sína af þyrnirósarsvefni, ryðja lyginni og falsvonunum burt og hefja til vegs á ný það sem raunverulega skiptir máli fyrir tilvist íslenskrar þjóðar – bókmenntaarfinn, tunguna og samhengi sögunnar.
Mögnuð lesning um dapurlegt upplausnarskeið í Íslandssögunni.
Kilja – 256 bls.
Útgáfuár: 2010